Hér eru nokkur dæmi um ferðir sem gætu hentað hópum. Listinn er að sjálfsögðu engan veginn tæmandi og hafið þið einhverja sérstaka áfangastaði í huga munum við gera ykkur tilboð. Að sjálfsögðu eru ferðaáætlanir háðar færð, framboði á gistingu o.þ.h.
Keflavík
09:00
Flogið að morgni frá Keflavík til Parísar. Þegar þangað kemur verður farið í stutta skoðunarferð um borgina áður en haldið verður að hóteli þar sem gist verður næstu 3 nætur.
Frjáls dagur í París, höfuðborg Frakklands. Tilvalið að spóka sig á Champs Elysées, líta inn í Notre Dame, kíkja á Eiffel turninn eða skoða í búðirnar á Rue du Rivoli. Kvöldverður á veitingastað, en að honum loknum halda þeir sem nenna upp á Montmartre hæðina þar sem Sacre Coeur kirkjan trónir uppi en listamenn hafast við á nærliggjandi götum og torgum.
Skoðunarferð til Versala. Þar er að finna eina stórkostlegustu höll sem byggð hefur verið og gefst kostur á að skoða hana og garðana sem henni tilheyra. En einnig að rölta um í miðbæ borgarinnar sem eitt sinn var höfuðborg Frakklands.
Ekið til Brussel, höfuðborgar Belgíu þar sem við munum gista 3 næstu nætur.
Farið í skoðunarferð um Brussel. Borgin hefur upp á margt að bjóða. Belgar eru þekktir fyrir góðan mat og gott og fjölbreytt öl og Brussel en heimsborg bæði að fornu og nýju. Í Brussel er m.a. að finna Ráðhústorgið Grand Place umlukið fögrum, gömlum byggingum, Manneken-Pis, sem er ein þekktasta stytta í Evrópu og Atomium-turninnn, sem byggður var í tilefni heimssýningarinnar 1958. Frjáls tími síðdegis, sameiginlegur kvöldverður á veitingastað.
Dagsferð til Brügge, sem er einstaklega heillandi og fögur borg í flæmskumælandi hluta Belgíu. Borgin var á síðmiðöldum ein helzta hafnar- og viðskiptaborg Evrópu en glataði síðar stöðu sinni. Því standa þar enn í dag glæsibyggingar frá blómatíma borgarinnar sem hafa nú hlotið verðskuldaða athygli og viðhald.
Heimferðardagur .
ATHUGIÐ: Ferðaáætlanir eru háðar færð, framboði á gistingu o.þ.h.
Sími ferðaskrifstofu +354-520 5200
Sími flotastýringar: +354-520 5240
Opnunartími skrifstofu 8:30 – 16:30 GMT