Sigling á Rínarfljóti


Hugmynd að siglingu á Rínarfljóti

1. dagur. Flogið til Frankfurt og ekið þaðan, með tilheyrandi stoppum, til borgarinnar Koblenz, sem stendur við mót stórfljótanna, Rínar og Mósel. Þar bíður okkar fljótaskip og við komuna þangað fá farþegar afhenta lykla að klefum sínum.  Kvöldverður og gisting um borð.

2.dagur. Siglt í bítið af stað upp eftir Rínarfljóti og eftir Rínardal, þar sem hann er fegurstur. Þessi hluti Rínar ásamt umhverfi er allur á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og leiðin er vörðuð köstulum, þorpum og þjóðsagnastöðum, m.a. Lorelei-kletti þar sem vatnadísin Lorelei heillar til sín þá sem framhjá sigla með söng sínum.  Morgunverður og  hádegisverður um borð. Komið til Rüdesheim um klukkan 14:00. Þar er dagurinn frjáls og ýmislegt í boði. Kvöldverður um borð en kvöldið frjálst í Rüdesheim og tilvalið að líta í bæinn eftir matinn. Siglt af stað um miðnætti.

 3.dagur. Morgunverður og hádegisverður um borð og komið til Mannheim fljótlega eftir hádegi. Þaðan er hægt að fara í  skoðunarferð til Heidelberg þar sem finna má einn frægasta kastala Þýzkalands og þar er einnig elzti og jafnframt einn virtasti háskóli landsins. Heidelberg er heillandi borg, sem er vel heimsóknarinnar virði. Siglt aftur af stað um klukkan 18:00. Um kvöldið er "gala"-kvöldverður (spariklæðnaður).

 4.dagur. Komið til Strassborgar um morguninn. Haldið frá borði eftir morgunverð og innritast á hótel. Skoðunarferð um Strassborg, sem er falleg gömul borg þar sem mætast þýzk og frönsk menning enda er borgin á fornu átakasvæði þessara stórþjóða og hefur tilheyrt hvoru ríkinu um sig í gegnum tíðina. Kvöldverður á veitingastað.

 5.dagur.  Ekið um klukkan 08:30 frá Strasbourg til Frankfurt þaðan sem flogið verður til Keflavíkur klukkan 14:00.