Norður - Ítalía


Hugmynd að ferð um Norður-Ítalíu. 

1. dagur. Flogið með Flugleiðum til Milano. Þaðan er ekið að stöðuvatninu Lago di Como sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna um aldir. Það er þriðja stærsta vatn Ítalíu og það dýpsta. Þar eiga stórstjörnur eins og Madonna og George Clooney sín sumarhús. Við gistum í borginni Lecco fyrstu 3 næturnar.

2.dagur. Dagsferð um Comovatn þar sem ekið er um falleg þorp og bæi og einnig verður farið í siglingu á vatninu. Kvöldverður á hóteli.

3.dagur. Frjáls dagur í Lecco, sem er falleg borg í fögru umhverfi. Lecco stendur við suð-austur hluta Como vatns með fallega fjallasýn til norðurs og austurs. Þessum degi er hægt að eyða í göngu meðfram vatninu, sitja á kaffihúsi og kynnast heimamönnum. Kvöldverður á hóteli.

4.dagur. Ekið til Torino, sem er forn og sögufræg en jafnframt nútímaleg borg í örum vexti. Hún er höfuðstaður Piemonte-héraðs og var einnig fyrsta höfuðborg sameinaðrar Ítalíu. Farið verður í skoðunarferð um borgina og nágrenni hennar en síðan er haldið til Asti, sem er miðstöð vínræktar í Piemonte og gist þar eina nótt. Kvöldverður á hóteli.

5.dagur. Ekið um Piemonte-hérað, sem er annað stærsta hérða Ítalíu. Það er umlukið Alpafjöllum á þrjá vegu og er oft nefnt matarkista Ítalíu. Við förum meðal annars um vínræktarsvæðin í Asti og Langhe-hæðum og kíkjum í vínsmökkun. Í lok dags verður komið til Genúa þar sem gist verður næstu 3 nætur. Kvöldverður á hóteli.

6.dagur. Skoðunarferð um morguninn um Genúa. Genúa er hafnarborg sem var um aldir sjálfstætt lýðveldi og mikið viðskiptaveldi á Miðjarahafinu. Þar fæddist meðal annars sæfarinn Kristófer Kólumbus. Síðdegið er frjálst og tilvalið að líta í verslanir, fara í siglingu til Portofino eða njóta útsýnis yfir borgina með því að taka svifbraut upp á hæðirnar við borgina. Kvöldverður á hóteli.

7.dagur. Dagsferð til “Landanna fimm” Cinque Terre, smábæjanna fimm, Monterosso al Mare, Vernazza, Comiglia, Manarola og Riomaggiore, sem eru heimsþekktir fyrir fegurð og eru á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þeir eru byggðir utan í snarbrattar hlíðar við klettótta strönd Miðjarahafsins. Þar stendur tíminn kyrr og einu samgöngurnar eru fótgangandi, með lest eða ferju á milli staða. Kvöldverður á hóteli í Genúa.

8.dagur. Brottför frá hóteli og ekið til heimsborgarinnar Milano. Farið í gönguferð um miðborgina þar sem m.a. er að finna óperuhúsið fræga la Scala og Dómkirkjuna, sem er eitt helzta kennileiti borgarinnar.